Iðnaðarmannafélag Akraness

Iðnaðarmannafélag Akraness var stofnað árið 1931. Ekki er vitað hvenær fyrsti fundur var haldinn en framhaldsfundur hans var haldinn 19. apríl 1931 í húsinu Haukabergi, sem var þá í eigu Jóhanns Guðnasonar. Fyrsti formaður félagsins var kosinn Ingimar Magnússon. Ársgjöld félagsmanna voru 5 kr. Félagið gekk í Landssamband iðnaðarmanna 11. desember 1935.

Félagið sýndi strax á þriðja fundi að fræðslumál væru þeim mikilvæg. Félagið stóð fyrir nokkrum teikninámskeiðum en einnig var unnið að því að stofna iðnskóla á Akranesi. Fyrsta skólanefnd Iðnskólans á Akranesi var kosin á fundi sem haldinn var 31. júlí 1936. Frk. Svava Þorleifsdóttir var ráðin skólastjóri og skólinn stofnaður 1. október 1936.

Iðnaðarmannafélag Akraness tók virkan þátt í menningarmálum bæjarins og barðist fyrir mörgu sem var í þágu bæjarbúa. Það hjálpaði til að mynda við byggingu leikfimihúss við barnaskólann, hélt jólatrésfögnuð fyrir börn og vann að því að efla Dráttarbrautina.

Árið 1968 var ákveðið að slíta félaginu þar sem félagsstarf var að miklu mæli dottið niður en samþykkt var að sjúkra- og styrktarsjóður iðnaðarmanna á Akranesi yrði stofnaður. Stofnfundur hans var 9. mars 1968.

Inn á miðlunarvefnum eru gjörðabækur félagsins ásamt afmælisriti þess frá 1956.