Íþróttaráð Akraness

Knattspyrnufélagið Kári og Knattspyrnufélag Akraness voru stofnuð 1922 og 1924 og höfðu þau verið ráðandi í íþróttamálum bæjarins allt þar til ársins 1934. Það ár setti Íþróttasamband Íslands ákvæði í lög sín um að íþróttaráð skyldi stofna á hinum ýmsu stöðum á landinu og hlutverk þess væri að fara með yfirstjórn íþróttamála í héraði. Í kjölfar þess var Íþróttaráð Akraness stofnað 31. maí 1934.

Fyrsti fundur ráðsins var haldinn 6. júní 1934 í versluninni Frón og fyrsti formaður ráðsins var Axel Andrésson en ÍSÍ skipaði fyrstu stjórn ráðsins. 

Ráðið fór strax að skipuleggja íþróttamál bæjarins og var fyrsta mótið haldið að Jaðarsbökkum 17. júní 1934. Keppt var í 50 m sundi, 4 km hjólreiðum og knattspyrnu. Knattspyrnufélag Akranes vann í knattspyrnu og var því besta knattspyrnufélag á Akranesi það ár. 

Dagskrá mótsins var svona:
Kl. 10:00 hófst sundið
Kl. 11:00 hófust hjólreiðarnar
Kl. 13:00 var messa í Akraneskirkju
Kl. 15:00 var skrúðganga frá Barnaskólanum upp á íþróttavöll við Jaðarsbakka og þar var flutt ræða. Eftir ræðuna hófst keppnin í knattspyrnunni.
Kl. 21:00 voru verðlaun afhent í Báruhúsinu og stiginn dans fram á nótt.

Íþróttaráð Akraness starfaði til 3. febrúar 1946 þegar Íþróttabandalag Akraness varð til og tók við starfsemi ráðsins. Síðasti formaður þess og jafnframt fyrsti formaður ÍA var Þorgeir Ibsen.

Það er hægt að nálgast upplýsingar um Íþróttaráði Akraness inn á miðlunarvefnum okkar.