Knattspyrnufélagið Kári

Knattspyrnufélagið Kári á sér langa sögu á Skaganum. Árið 1972 var haldið upp á 50 ára afmæli félagsins og þá flutti Helgi Daníelsson ræðu sem verður nýtt hér sem heimild.

Forsaga stofnunar Kára var sú, að hinn mikli æskulýðsleiðtogi sr. Friðrik Friðriksson hélt barnasamkomu í Akraneskirkju og talaði um knattspyrnufélagið Val í Reykjavík, starf þess og tilgang, en það félag hafði hann stofnað árið 1911. Þá nokkrum árum áður var fótbolti farinn að ryðja sér rúm í Reykjavík og víðar. Sá eldmóður sem kom fram hjá sr. Friðrik á samkomunni í kirkjunni kveikti áhuga hjá hinum ungu áheyrendum og varð til þess að þeir stofnuðu félag.

26. maí árið 1922 söfnuðust nokkrir drengir saman í kálgarðinum hjá Árnabæ og hófust umræður um möguleikana á því að stofna knattspyrnufélag á Akranesi, því þá var ekkert formlega stofnað knattspyrnufélag hér í bæ. Var mikill áhugi fyrir málinu og svo fór að allir urðu sammála um að stofna félagið. Hinir eiginlegu stofnendur urðu þó ekki fleiri en tíu (ekki nóg í eitt lið). Þeir voru á aldrinum 10 til 14 ára.

Ekki var hinu nýstofnaða félagið valið nafn að þessu sinni, nú vantaði það sem við þurfi til að þetta gæti heitir knattspyrnufélag, sem sagt knöttinn. Nú voru góð ráð dýr, því knötturinn kostaði hvorki Meira né minna en 10 krónur. Varð því að ráði að hver félagsmaður legði fram eina krónu, en flestir áttu þó bágt með að leggja fram svo stóra upphæð. En með ötulli framgöngu hinna ungu og áhugasömu drengja hafðist þetta þó að lokum. Nú var knötturinn fenginn, en þá kom upp annað vandamál, nú vantaði völlinn. En Langisandur, sléttur og víðáttumikill leysti það vandamál og var nú haldið þangað. Áður en æfingin byrjaði, varð að gefa hinu nýstofnaða félagi nafn. Skyldu nú gerðar uppástungur að nafni og skrifaði hver sína uppástungu í sandinn. Þessar uppástungur komu fram: Elding, Högni, Gunnar Hámundarson og Kári og var það síðasta samþykkt. Formaður var þá kosinn Gústaf Ásbjörnsson, enda var hann elstur stofnenda eða 14 ára gamall.

Fyrsti kappleikur Kára fór svo fram stofnárið 1922 við drengjafélag á svipuðu reki, er kallaði sig Stefaníu og var hann háður á Langasandi. Ekki er hægt að segja annað en að hið unga félag hafið orðið sigursælt í sínum fyrsta kappleik, því Kári sigraði 11-0.

Um haustið 1922 var endanlega gengið frá stofnun Kára og samþykkt lög fyrir félagið. Var Sveinbjörn Oddsson hjálplegur hinum ungu félögum við samningu þeirra.

Árið 1929 eru gerðar þær lagabreytingar að kvenfólki er leyfð innganga í félagið með iðkun handknattleiks fyrir augum. Árið 1930 gengur Kári í Íþróttasamband Íslands og fær staðfestan búning. Árið 1933 er fyrsti þjálfari Kára ráðinn, Axel Andrésson. Á þessum tíma voru vallarskilyrði mjög slæm og því var leitað til hreppsnefndar um nýtt vallarstæði. Hreppsnefndin brást vel við og lét í té vallarstæði á Jaðarsbökkum. Sá völlur var vígður af oddvitanum Jóni Sigmundssyni 16. júní 1935. Völlurinn var byggður í sjálfboðavinnu félagsmanna Kára og Knattspyrnufélags Akraness sem var stofnað 1924. Fyrsti leikurinn á vellinum var einmitt á milli þeirra tveggja og lauk honum með sigri Kára, 4-2.

31. maí 1934 er stofnað Íþróttaráð Akraness og var Axel Andrésson fyrsti formaður þess. Árið 1943 taka Akurnesingar í fyrsta skipti þátt í Íslandsmeistaramóti 1. flokks og var keppt undir nafni Íþróttaráðs Akraness. Árið 1944 er hafist handa við byggingu íþróttahúss við Laugarbraut og verkið unnið að mestu í sjálfboðavinnu félagsmanna Kára og KA. Húsið var síðan vígt 3. mars 1945, fimm mánuðum eftir að fyrsta skóflustungan var tekin.

Árið 1946 er Íþróttabandalag Akraness (ÍA) stofnað og tekur það við starfi Íþróttaráðsins. Eftir stofnun þess breytist starfssvið Kára mikið þar sem ÍA varð æðsti aðili íþróttamála í bænum og þá mæta öll lið til keppni í nafni þess.

Kári starfaði til ársins 1986 er það var lagt niður. Árið 2006 var ákveðið að stofna lið í anda Kára og KA en það félag lifði ekki lengi og var lagt niður 2007.

13. apríl 2011 var Knattspyrnufélagið Kári formlega endurvakið og var ákveðið að spila undir gamla merki félagsins sem og að hafa sama útlit á búningunum eins og þeir voru í upphafi.

Á þessu ári eru 100 ár síðan að Kári var stofnaður. Því er það okkur mikið ánægjuefni að tilkynna að nú eru komin nokkur rit sem tengjast félaginu á miðlunarvefinn okkar.