Viltu afhenda skjöl?

Skjöl frá einstaklingum og félögum

Héraðsskjalasafnið tekur við skjölum einstaklinga til varðveislu enda er í þeim að finna margs konar fróðleik. Dæmi um merk einkaskjöl geta verið dagbækur, bréfasöfn, bókmenntahandrit, sveitarblöð, ættfræði, búreikningar o.fl. Engu máli skiptir hvaða stöðu einstaklingurinn hefur, né aldur eða kyn og hversu mikið um er að ræða.

Safnið tekur einnig við skjölum fyrirtækja og félaga. Í reglugerð er kveðið á um að félögum sem njóti opinberra styrkja beri að skila inn sínum gögnum á héraðsskjalasafn. Það er væntanlega metnaðarmál hvers félags að skilja eftir sig merki um starfsemina og að skjöl þess séu varðveitt. Oft er það svo að skjöl félags flytjast hús úr húsi með formönnum og jafnvel gleymast eða týnast við þær aðstæður. Koma má í veg fyrir slíkt með því að fela opinberu skjalasafni varðveislu gagnanna. Hið sama á við um skjöl fyrirtækja.

Ef einstaklingar hafa í fórum sínum skjöl sem ætla má að hafi varðveislugildi er fyrsta skrefið að hafa samband við safnið. Síðan ræðst það af aðstæðum hvert næsta skref verður, t.d. hvernig gengið er frá skjölunum áður en til afhendingar kemur.

 

Skjöl frá sveitarfélögum

Allar stofnanir og fyrirtæki Akraneskaupstaðar  eru afhendingarskyld með skjöl sín til safnsins.

Skjöl þarf að varðveita í viðurkenndum umbúðum, sérstökum skjalaöskjum og sýrufríum örkum og þau þarf einnig að skrá á vandaðan hátt svo þau finnist þegar á þarf að halda. Full ástæða er til þess að hafa samband við safnið og fá leiðbeiningar varðandi fráganginn áður en ráðist er í að pakka skjölum til afhendingar 

handbok_sveitarfelog.pdf (skjalasafn.is)