Æfingafélagið á Akranesi

Þann 8. janúar árið 1882 var Æfingafélagið stofnað á Skipaskaga og var Árni Magnússon kosinn fyrsti formaður. Í óbirtum minningum Sveins Guðmundssonar í Mörk segir að Hallgrímur Jónsson hreppstjóri hafi komið félaginu af stað.

Æfingafélagið var málfundafélag sem hafði það að markmiði “að æfa félagsmenn í að ræða og rita um þau málefni sem miða til andlegrar og veraldlegrar framfarir Skagans og almenningi til heilla.” Stofnfélagar voru 24 en fyrsta árið voru 33 menn skráðir í félagið. Það starfaði að mestu óslitið til 1897 og var síðan endurvakið skamma hríð árið 1904. Síðasta fundargerð er rituð 18. janúar 1905, en eftir það virðist starfsemi félagsins hafa endanlega lognast út af í þeirri mynd sem það var þá.

Æfingafélagið var stórmerkur félagsskapur og geyma gjörðabækur þess mikinn fróðleik um sögu Akraness undir lok síðustu aldar. Félagsmenn komu að flestum málum, stórum sem smáum, sem stuðla áttu til framfara í bænum. Félagið stóð m.a. að uppsetningu fyrsta vita á Akranesi, um 1890, og rekja má upphaf skipulagðrar íþróttastarfsemi á Akranesi til félagsins.

Nú hafa gjörðabækur félagsins verið ljósmyndaðar og þær settar inn á miðlunarvef Héraðsskjalasafnsins. Endilega farið inn á miðlunarvefinn okkar og skoðið bækurnar.