Póstkortasafn Jóhönnu

„Hún er alæta á íslensk kort“. Svona hljóðaði fyrirsögn í Helgarpóstinum 14. nóvember árið 1980. Þar var rætt við Jóhönnu J. Þorgeirsdóttur sem var póstkortasafnari í húð og hár.

Jóhanna var fædd 1. september árið 1930 á Litla Bakka hér á Akranesi og lést 21. apríl 2006. Hún safnaði einungis íslenskum póstkortum og safnið hennar inniheldur tugir þúsunda korta. Meginhluti safnsins hennar eru afmælis-, jóla-, nýárs- og fermingarkort og uppistaðan er frá árunum 1920-1960. Elsta kortið í safninu hennar er þó frá arinu 1902 og er því rétt að detta í 120 ára aldurinn.

Vorið 2006 afhenti eiginmaður Jóhönnu, Hjalti Jónsson, bókasafninu kortasafnið með því eina skilyrði að það yrði geymt sem heild. Safnið er í dag varðveitt í geymslu Héraðsskjalasafns Akraness og verður þar sem ómetanlegur fjársjóður um ókomna tíð.

Síðustu daga hefur Héraðsskjalasafnið notað nokkur jólakort úr þessu safni til að telja niður, á Facebook, þá jólasveina sem rölta með gjafir til barna um þessar mundir. Líkt og jólasveinarnir, sem gleðja ungar sálir með heimsókn sinni, vonumst við á Héraðsskjalasafninu að birting þessara jólakorta hafi glatt okkar vini síðustu daga.

Að lokum viljum við þakka Jóhönnu enn og aftur fyrir að hafa safnað þessum kortum, Hjalta fyrir að hafa komið þeim í öruggt skjól til okkar og ykkur öllum fyrir að vera þátttakendur í því að halda gömlum heimildum lifandi með því að fylgjast með okkur og því sem við höfum fram að færa.

Góðar stundir.